Uppskriftir

Matreiðsla hangikjöts

Ýmsar aðferðir eru til við að sjóða hangikjöt en versta aðferðin er að hafa vatnið bullsjóðandi og sjóða kjötið of lengi – þá er nokkuð öruggt að það verður þurrt og rýrnar mikið. Miklu betra er að láta það malla við mjög hægan hita og margir nota þá aðferð að setja kjötið í pott með köldu vatni, hita það rólega að suðu og slökkva síðan undir pottinum þegar suðan er komin upp en láta hann standa á hellunni og láta kjötið kólna í soðinu. Þannig fæst mátulega soðið kjöt, mjög safaríkt og meyrt. Sumir vilja þó ívið þurrara kjöt og þá má láta það malla nokkra stund, en hver sem aðferðin er, þá er best að láta kjötið kólna í soðinu, a.m.k. nokkra stund.
Gott er að nota kjöthitamæli við suðu á hangikjötið og mæla kjarnhita (hitann í miðju stykkinu); hann á alls ekki að fara yfir 70°C og gott er að hann sé nokkrum gráðum lægri.

Þeir eru til sem gufusjóða kjötið eða steikja það í ofni við vægan hita en rétt er að athuga að kjöt matreitt með þeim aðferðum verður saltara en annað, þar sem lítið sem ekkert af salti fer út í soðið. Því er betra að velja kjöt frá framleiðendum sem salta tiltölulega lítið ef beita á þessum aðferðum. Við gufusuðu er kjötið sett á grind í potti og dálítið vatn sett í pottinn, þó ekki svo mikið að það nái upp á kjötið, og þétt lok lagt yfir. Best er að nota hitamæli til að finna hvenær kjötið er tilbúið. Ef kjöt er steikt í ofni er hitinn hafður á bilinu 100-130°C og kjötið vafið í álpappír og steikt þar til kjarnhiti er um 67°C.

Algengast er að sjóða kjötið bara í vatni en margir bæta 1-2 msk af sykri eða púðursykri út í og þykir það gefa betra bragð. Ýmislegt fleira er þó hægt að gera, t.d. bæta maltöli út í suðuvatnið, sjóða lárviðarlauf, lauk eða annað grænmeti með. Þeir eru líka til sem sjóða gular baunir með hangikjötinu en þá eru það pokabaunir, þ.e. baunirnar eru settar í grisjupoka sem settur er út í pottinn með kjötinu. Baunirnar taka í sig bragð af kjötinu og eru svo hrærðar með smjöri og borðaðar með.

Afganga af soðnu hangikjöti má nýta á ýmsan hátt. Algengast er að bera kjötið fram eins og það kemur fyrir, t.d. með laufabrauði og smjöri, eða skera það í bita, hræra því saman við kartöflujafning og grænmeti og bera fram í tartalettum. En það er hægt að gera margt annað við afgangana og í rauninni er hægt að gera flest það sama og gert er við afganga af reyktu svínakjöti. Til dæmis mætti skera kjötið í sneiðar, raða því í fat og setja kartöflustöppu (ekki verra að hún sé úr sætum kartöflum) í kring, og hella e.t.v. dálítilli þunnri sósu yfir. Þetta er svo sett í ofninn og bakað þar til stappan er farin að taka örlítinn lit og kjötið er heitt í gegn. Einnig má léttsteikja kjötið á pönnu.

Gott, bragðmikið hangikjöt er líka ljómandi gott þótt ekkert sé gert við það – þ.e. það er ekki einu sinni soðið. Þá eru skornar örþunnar sneiðar af hráu hangikjöti og þær síðan bornar fram t.d. sem forréttur á ristuðu brauði með salatblöðum og graflaxsósu, eða með melónubátum, eða kryddjurtavinaigrette. Einnig má ,,grafa” hangikjötið, þ.e. núa inn í það kryddjurtum og láta liggja í nokkra daga áður en það er borið fram.

Tekið af vefnum lambakjot.is